Biskupinn okkar
Þá er hann látinn blessaður biskupinn okkar.
Í mínum huga hefur Sigurbjörn Einarsson alltaf verið hinn eini sanni biskup á Íslandi. Hann bar með sér vísdóm og gæsku. Magnea biskupsfrú á fínu peysufötunum sínum var hin sanna ímynd prestmaddömmunar í mínum huga. Þetta voru svo falleg hjón.
Þegar ég var krakki á Borgarfirði eystra vísiteraði Sigurbjörn og messaði í Bakkagerðiskirkju. Auðvitað mætti ég í messuna, prúðbúin og fín. Ég var örugglega í bláum kjól sem mamma heklaði á mig.
Að athöfn lokinni stóðu þau hjónin í kirkjudyrunum. Veðrið var fallegt, sólin skein og Sigurbjörn tók í hönd allra kirkjugesta, þar með talið í hönd mína.
Ég gleymi þessu handataki aldrei. Ég hef aldrei tekið í hönd merkari manns.