16 ágúst 2008

Að bregðast við ábendingum

Fyrir nokkrum vikum síðan ritaði ég tölvupóst.
Innihald hans voru kvartanir og ábendingar vegna ástandsins hér í götunni. Það hefur ekki verið lokið við að ganga frá jarðvegi sem mokað var upp á malbikið meðan á byggingaframkvæmdum stóð, það bólar ekkert á gangstéttarframkvæmdum og það er rusl og drasl hér á lóðum þeirra húsa sem ekki hafa verið seld.
Það er vægast sagt leiðinleg aðkoma hingað að Skógarkoti og þegar vinda fer að hreyfa í haust má búast við að þetta lausadót og timbur verði eins og skæðadrífa hér um götuna, ef ekki bara um hverfið.
Ég sendi tölvupóstinn til bæjarstjórans, bæjartæknifræðingsins, lögmanns Bjarkasels ehf. sem á óseldu húsin og til skiptastjóra Viðhalds fasteigna ehf. sem sá um framkvæmdir hér.
Fátt hefur verið um svör. Bæjartæknifræðingurinn svaraði og sagði að farið yrði í gangstéttarframkvæmdir í sumar. Ekki bólar nú enn á því.
En meðan ég var áhyggjulaus upp í Geldinafelli þá bregður svo við að bæjarstarfsmenn hafa tekið sig til og hreinsað smávegis hér í kringum mig. Ekki þetta sem ég var að kvarta yfir, heldur hafa þeir gert sér lítið fyrir og hreinsað burtu alla birkibolina sem ég var búin að draga að mér þegar ég grisjaði rjóðrið hér fyrir neðan og ætlaði að saga í eldinn.
Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki þessi vinnubrögð.

|