Magnús Atli
Þá er litli maðurinn á Húsavík búinn að fá nafn.
Hann heitir í höfuðið á afa sínum og Maggi er sæll og ánægður með að vera búinn að fá nafna.
Hér eru þeir kappar Jón Magnús, Hrafnkell Fannar og Magnús Atli. Myndarlegir feðgar á fæðingardeildinni.
Við Berglind Rós og Nína lögðum af stað frá Reykjavík í gærmorgun með kaffi í brúsa og nesti í boxi. Við byrjuðum á því að heimsækja það allra, allra myndarlegasta sveitabýli sem ég hef á ævinni séð. Vatnsleysa í Biskupstungum. Jafnvel hestarnir stóðu í fallegri röð. Okkur var vel tekið og ég fékk að heilsa upp á köttinn Dag sem ég hef heyrt margar sögur af, enda er þetta bæði fallegur og gáfaður köttur.
Eftir að hafa skoðað okkur um í garðinum og dáðst að öllu innan dyra og utan, fórum við með Ragnheiði í nýja sumarhúsið sem hún og Eymundur hafa byggt sér handan við bæjarhólinn. Þar var líka allt myndarlegt og fínt og við þáðum kaffi og veitingar áður en við brunuðum áfram heim í Hérað.
Ferðin heim tók 12 tíma eins og suðurferðin, enda vorum við í sannkölluðum sumarleyfisgír og þetta var alveg virkilega vel heppnað ferðalag hjá okkur.
Ég þakka þeim mæðgum Nínu og Berglind Rós fyrir skemmtilega Reykjavíkurferð. Nú fer ég í að þvo og pakka í næstu ferð en planið er þriggja daga ferð með Magga í Geldingafell á miðvikudaginn.