01 ágúst 2008

Dýrðarinnar dásemdardagar á fjöllum

Allt tekur enda, líka góðir dagar á fjöllum.
Síðustu dagar hafa verið yndislegir. Við Maggi byrjuðum á að leysa skálaverðina í Kverkfjöllum af og á þriðjudag fluttum við okkur yfir í ponsulitla húsið í Hvannalindum.


Það var notalegt að búa þar í nokkra daga. Ekkert rafmagn - fyrir utan það sem sólarsellan safnar fyrir litla ljósaluktir, ekkert rennandi vatn og ekkert símasambandi í kotinu.
Ég hélt ég myndi sakna tölvunnar og kóksins, kannski baðkarsins og rúmsins. En það var ekki það sem ég saknaði sérstaklega.
Það sem ég saknaði allra, allra mest, meira en Klófríðar og Kolgrímu, var vatnssalerni. Ég hef einhverja ólýsanlega kamarfóbíu sem kemur sér illa fyrir konu eins og mig sem elskar lífið á fjöllum. Svo var það ekki til að bæta úr að það var hálf dagleið út að kamri. Sem hefur reyndar líka sína kosti.
Við fórum víða. Maggi rúntaði með mig inn í Hveragil, að rústunum þar sem þjóðsagan segir að Halla og Eyvindur hafi hafst við. Það var steikjandi hiti og sól þegar við gengum þar um, upp með Lindaáinni, yfir hrauntunguna og aftur niður að rústum. Við fórum að Jökulsá við Upptyppinga og þar skoðuðum við flottasta graffití sem ég hef séð.


Þetta flokkast auðvitað sem náttúruspjöll en ég get ekki annað en dáðst að hvað þetta er vel gert. Beinar línur og falleg stafagerð. Það eru mörg ár síðan þetta var gert og ég get ekki ímyndað mér hvernig einhver hefur haft kjark til að hanga þarna yfir beljandi Jökulsá á Fjöllum og dunda við að mála ættartölu Völsunga.


Þessi fjalladvöl líður örugglega seint úr minni.
Framundan er verslunarmannahelgin, ætli ég skelli mér ekki bara á Álfaborgarséns, alla vega á sunnudaginn.

|