27 júlí 2008

Óbyggðirnar kalla

Málningaferðin í Víkur breyttist í vikudvöl í Hvannalindum.
Maggi er farinn inneftir og tekinn við landvörslu og ég fer á morgun og verð næstu vikuna í hlutverki Höllu á fjöllum.
Ég er búin að fara í Bónus og kaupa vikuforða af mat. Þetta verður nú svolítið þægilegra en var hjá Eyvindi og Höllu en fegurðin á fjöllum er sú sama.
Ég hlakka til að takast á við þessa óbyggðadvöl. Að vera þarna í litla svarta kofanum sem stendur á svörtum klettum og ekkert nema svartur sandurinn umhverfis.
En Lindaáin rennur rétt við kofann og suður af honum eru hvannirnar og gömlu rústirnar þar sem talið er að Halla og Eyvindur hafi hafst við.
Fyrsta verkið á fjöllum verður að leysa skálaverði í Kverkfjöllum af en þau ætla að brega sér yfir í Dreka og taka þátti í fagnaði sem þar verður annað kvöld.
Ég á ekki eftir að sakna sjónvarpsins því ég hef varla kveikt á því í allt sumar en ég á örugglega eftir að sakna tölvunnar og internetsins.
Ég verð örugglega með fráhvarfseinkenni, bæði af tölvuleysi og eins af kókleysi því Coce light verður ekki með í för.

|