23 júlí 2008

Sumar á Héraði

Loksins er hitastigið komið yfir 20°C hér á Héraði.
Verst að þá tollir hálendið ekki lengur á fjöllum, en við á Egilsstöðum vorum í miðju moldarskýi seinnipartinn í gær.
En í augnablikinu er yndislegt sumarveður, það sér til fjalla og út á sjó.
Það er svo mikið um að vera á næstunni. Dandý og Hrafnkell gifta sig næsta laugardag og veislan í Valaskjálf gæti endað sem dansleikur með Sálinni. Ég er búin að kaupa flottan kjól sem ég ætla að vígja í brúðkaupinu.
Gunnhildur og Mirek koma um helgina, á mánudag fer ég í Víkur með Magga að mála fyrir Ferðafélag Fljótsdalshéraðs og hitta Ingu Rósu sem þá verður orðinn skálavörður í Húsavík.
Síðan eru Anna Berglind og Nonni væntanleg í næstu viku og verða fram yfir verslunarmannahelgi, þannig að það eru bara góðir dagar framundan.
Svo get ég alls ekki þagað yfir því að þó það sé langt þangað til að ég verði fimmtug þá er Maggi búinn að kaupa handa mér afmælisgjöf. Ég mátti velja mér ferð eitthvað út í heim (og aftur til baka) og ég valdi ferð til Torremolinos í september. Ég hlakka ekki lítið til. Hótelið er huggulegt og alveg niður við ströndina.
Ég hef svo margt að hlakka til.

|