17 júlí 2008

Skreppitúrar

Við Maggi skruppum norður að skoða litla manninn á Húsavík.
Hann er voðalega sætur og með eindæmum afslappaður. Ég fékk að halda á honum og dáðst pínulítið að honum. Núna reyni ég að sitja á mér með að suða um barnabörn, en mikið voðalega hlakka ég til ef ég fæ að verða amma einn daginn.
Ég skrapp í Bónus í hádeginu. Var komin þangað rétt áður en búðin opnaði og þar beið fjöldi manns, fullur eftirvæntingar. Ég var að spá í hvort það væri að hefjast listviðburður eða trúarhátíð. Þegar dyrnar opnuðust streymdu allir inn í Jóhannesarhofið, penir og prúðir. Þetta voru nær eingöngu ferðamenn sem komu með Norrænu í morgun.
Síðdegis skruppum við Maggi á Borgarfjörð. Ég var að sýna honum Runu og Stellu á Lindarbakka. Honum leist vel á þær báðar.
Í Runu voru Anna Guðný og Guðlaug að príla á þakinu og strjúka síðustu pensilstrokurnar á þakinu. Það er núna fallega blátt.

|