Rannveig gerist rafvirki
Ótrúlega er lífið ljúft um þessar mundir.
Ég hef fengið skemmtilega gesti og verið að bardúsa eitt og annað síðustu daga. M.a. var ég í grillveislu í hitanum á Hallormsstað í gær.
Ég er nánast flutt út í garð og ég elska það að gramsa í moldinni og setja niður plöntur. Ég er búin að gróðursetja glansmispil í rúmlega 20 m langt beð á norður lóðamörkunum og í dag ætla ég að setja niður alla stikklingana sem ég hef verið að dunda mér við að gera plöntur úr í vor.
Það voru tengd garðljós út í steinabeiðið mitt en þar sem þau voru sett á sömu grein og pallaljósin, þá reyndist dimmerinn allt of lítill.
Nema hvað, ég bara keypti stærri dimmer, tók gamla dimmerinn úr boxinu og tengdi þann nýja, alveg sjálf og ein.
Ég er búin að monta mig svo mikið af þessu afreki og síðast í gær við Gísla í Sólskógum. Hann sagði að þetta væri bara tákn um eitt, ég væri búin að vera of lengi ein og þ.a.l. orðin alveg sjálfbjarga.
En þetta er ekki eina afrekið mitt. Ég fékk lánaðan litla Krúserinn hans Magga og fínu kerruna hans Fúsa hennar Grétu, fór inn á Velli til að sækja alla glansmisplana í Sólskóga og hrossaskít í Útnyrðingsstaði. Þegar heim kom tókst mér að bakka kerrunni niður með lóðinni og koma öllu hlassinu á sinn stað.
Ótrúlega sem ég er ánægð með sjálfa mig þessa dagana. Mig klæjar í puttana af tilhlökkun að reyna hvort ég hafi smiðshæfileika en ég er með á teikniborðinu hjá mér litla arinviðargeymslu sem ég ætla að reyna að smíða sjálf.
Nína vinkona er fimmtug í dag og hún fær afmæliskveðju frá mér en hún er enn á hestamannamótinu á Hellu þar sem hún hefur haldið til síðustu vikuna.
Sólin skín og ég er farin út í garð. Eigið öll góðan dag.