30 júní 2008

Pestarsumarfríi lokið

Núna er klukkan að verða fjögur og sumarfríð búið.
Þ.e.a.s. fyrra sumarfríið. Aðal sumarfríið mitt er í ágúst.
Ég hef gert heilan helling en þar fyrir utan hefur kvefpestin verið áberandi í þessu fríi.
Garðurinn minn er eins og græn vin hér í byggingamörkinni og grannkonur mínar hafa lýst ánægju sinni með að sjá gras hér innan um allar framkvæmdirnar. Þetta eru líka konur með lítil börn og lítil börn fara svo vel á grænu grasi.
En þar sem ég ligg nú hér í bóli mínu þá verður mér hugsað til þeirra sem fyrir 90 árum voru að veslast upp í spænsku veikinni í Reykjavík. Það hefur verið ömurlegt. Liggjandi hundlasinn og bíða dauðans í lélegum húsakynnum og við slæman aðbúnað.
Ég ligg hér í hreina húsinu mínu, undir dúnsæng í mjúka rúminu mínu og úti er grasið að skjóta rótum á lóðinni. Ef mig vantar eitthvað þá þarf ég ekki annað en að hringja í vini og vandamenn og þeir uppfylla óskir mínar.
Ég hlýt að lifa þessa drepsótt af við þessar góðu aðstæður.
Þetta hefur verið fjölbreytt pest. Beinverkir, kvef, hausverkur, hiti, hálsbólga og núna hnerra ég og hnerra. Þetta hefur ekki allt sótt að mér í einu, heldur hefur þetta verið kaflaskipt. Spennandi að vita hvað verður á morgun, en þá á ég að byrja aftur að vinna.
Ég fæ 2 aukafrídaga út á þessi veikindi og þá daga ætla ég að nota með Magga í Hvannalindum, en hann verður landvörður þar í viku í júlí. Þá fæ ég tækifæri til að setja mig í spor Höllu þegar hún dvaldi með Eyvindi á fjöllum. En Maggi býður upp á betri dvalarstað en Eyvindur og vonandi verður ekki illa fenginn matur á boðstólum.

|