18 júní 2008

Bangsaæfing

Ég er að stúdera viðbrögð ef maður hittir ísbjörn.
Ég rakst á mjög gagnlegar upplýsingar og nú er ég að temja mér það sem hér er kennt:

Nálgist aldrei ísbjörn, aldrei ögra birni, og alls ekki lenda á milli birnu og húna. Ef þið sjáið ísbjörn og hann veit ekki af ykkur: Ganga rólega burt af svæðinu, halda ró sinni, fylgjast með birninum og forðast að láta vindinn bera lykt ykkar til bjarnarins. Ef björninn veit af ykkur; ganga rólega til baka, engar snöggar hreyfingar og alls ekki að hlaupa því þá gæti hann litið á ykkur sem bráð. Og þá er betra að björninn róist og geti nýtt þefskynið til að fylgjast með ykkur.Fylgist með birninum en ekki horfast í augu við hann.

Ekki ögra. Ísbirnir eru forvitnir um menn en þeir eru líka skræfur og hræðast auðveldlega menn en ef ísbjörn gerir sig líklegan til að ráðast á ykkur þá er vopnlausum ferðalöngum ráðlagt að hræða hann í burtu með því lyfta höndum upp eða flík, láta sig þannig sýnast stærri og öskra og garga á björninn. En þá verður hann að hafa flóttaleið. Standið saman í hóp. Komið ykkur burt af svæðinu en alls ekki hlaupa.

Ef menn lenda í slag er best að standa fastur fyrir og berjast á móti með tiltækum vopnum, spýtum eða hnífum. Ísbjörninn kemst ekki á lista yfir hættulegustu dýr jarðar en þar er móskítóflugan á toppnum með tvær milljónir mannslífa á ári, en síðan koma snákar, sporðdrekar, krókódílar, fílar, býflugur, ljón, flóðhestar, marglyttur og hákarlar, og er þá maðurinn sjálfur undanskilinn.


Ég ætti nú bara að vera nokkuð örugg ef bangsi verður á vegi mínum því ég er alveg afleit í að hlaupa, satt að segja finnst mér engin hreyfing eins leiðinleg.

Ég ætla samt að halda mig við það sem segir í upphafi "Nálgist aldrei ísbjörn".

|