Sumarfrí
Þá er ég komin í sumarfrí.
Reyndar tek ég bara hálfan mánuð núna og svo afganginn í ágúst.
Það er margt spennandi á döfinni hjá mér. Ég var búin að skipuleggja fríið mitt þannig að ég yrði sem mest heima, en ég byrja á að vera nokkra daga á Borgarfirði með systkinum mínum. Það eru árlegir tiltektardagar í Runu.
Svo kemur nú örverpið mitt í helgardvöl til mömmu gömlu eftir viku. Þá verða hátíðahöld í Skógarkoti.
23. júní á ég von á flokki vaskra manna sem ætla að útbúa handa mér eitt stykki garð með grasi og öllu sem einn garður þarf á að halda. Ég hlakk mjög mikið til að ganga frá lóðinni.
Nú svo er það jazzhátíðin okkar. Maggi var svo hufflegur að gefa mér miða á alla tónleikana svo ég verð að vera dugleg að nota mér það.
Annars er ég svo ánægð með að ég er aftur komin með mikinn áhuga á ræktun. Ég hef ekki fundið fyrir grænum fiðringi í puttunum síðan ég bjó á Strönd. Núna eru stikklingarnir sem ég klippti í vor hér úti í kössum að róta sig. Ég er komin með nokkur ker af blómum á stéttina, sum þeirra fara á pallinn. Svo er ég komin með marga litríka og glaðlega blómapotta í eldhúsið. Í þeim eru kryddjurtafræ að búa sig undir að láta kryddjurtir vaxa.
Sem sagt. Lífið er yndislegt og ég geri það sem ég vil - skyldi maður verða leiður á því til lengdar að vera til?