09 júní 2008

Lífið í sveitinni

Ég man þá tíð að sauðfé gekk hér frjálst um götur Egilsstaða.
Oft urðu garðeigendur argir þegar þeir komu á fætur á morgnanna og búið var að bíta blómin af stjúpunum og morgunfrúnum. Svo ekki sé nú talað um kálplöntur sem horfið höfðu ofan í lömbin.
Jafnvel einn og einn bolakálfur sást á vappi. Það er ekki langt síðan ég sá hestastóð rekið í gegnum bæinn.
Svona er lífið í sveitinni.
En nú á hreppslandið að vera girt og girðingarnar eiga að halda búfénaði utan kauptúnsins.
Þess vegna kom mér það á óvart í dag þegar ég sá kind með tvö lömb á leið yfir Seyðisfjarðarveginn, sem skilur hverfið mitt frá aðal byggðinni.
Mér fannst ekki síður athyglisvert að þetta var vel upplýst kind sem fór með lömbin sín yfir á merktri gangbraut og bílarnir stoppuðu til að hleypa þeim yfir.
Mér sýndist kindin taka stefnuna í Litluskóga þangað sem Jón dýralæknir býr. Kannski að eitthvað hafi amað að lömbunum hennar.

|