01 júní 2008

Mér þykja hnetur góðar

en nú verð ég að hætta að borða þær.
Eins og ég hef áður sagt, allt sem er gott er bannað.
Ég fór til læknis í gærkvöldi og niðurstaðan er sú að ég er trúlega búin að koma mér upp hnetuofnæmi. Maður er búinn að heyra svo margar tröllasögur af hnetuofnæmi að mér fannst þetta næstum eins og dauðadómur. En ofnæmi og ofnæmi er víst ekki það sama og mitt brýst út í húðinni en ekki í öndunarveginum svo ég get andað rólega.
Appelsínuhúð er bara falleg við hliðina á hraunhelluhúðinni sem ég er með á fótunum.
Ég fékk svo roslega góða kúskúsuppskrift um daginn og sá fyrir mér að þetta yrði sumarrétturinn í Skógarkoti. En þar sem það er hellingur af hnetum í réttinum verð ég að hætta við það, nú eða sleppa hentunum í uppskriftinni - ég held að ég geri það bara.
Við Elva og Guðrún Lára fórum í skemmtiferð til Akureyrar í gær. Sem betur fer hafði ég misskilið veðurspánna og var í þægilegum sumarbuxum, hélt að það ætti að vera sól en svo var bara rigning fyrir norðan. En þessi misskilningur bjargaði deginum því ég hefði ekki haldið út í venjulegum buxum af því að ég var orðin svo vond í húðinni.
En dagurinn var skemmtilegur og þar sem það rignir ekkert á Glerártorgi var þetta bara fínt.
Ég er ekki góður náttúrufræðikennari því upp á Möðrudalsöræfum sá ég útundan mér aftan á grábrúnan fugl hefja sig til flugs og sagði við Guðrúnu Láru "Nei, sjáðu, þarna er spói." Við nánari skoðurn reyndist þetta vera gæs. En það var örugglega spói sem ég sá á leið minni í Vallanes fyrir helgi. Ég sá framan á þann fugl.
Í dag er skafheiður himinn á Héraði og ætla að finna mér eitthvað skemmtilegt að gera. Svo þarf ég að endurskoða matseðil kvöldsins, ég fæ gesti í mat og ætlaði auðvitað að hafa kúskúshentusalatið með matnum. Það er vonandi svona fallegt veður á skjálftasvæðinu fyrir sunnan svo menn séu ekki háðir því að vera undir þaki.
En ég fann það út í gær að Hagkaup er okurbúlla við hliðina á Bónus. Einn skammtur af kattamat sem kostar 56 kr. í Bónus kostar litlar 125 kr. í Hagkaup.

|