24 maí 2008

Sjúkrahúsið Skógarkot

Klófríður litla er að braggast.
Hjörtur lét mig hafa smyrsl í augun á henni, því hún hefur fengið sýkingu í þau. Ég ráðfærði mig við hann í gærkvöldi og hann sagði mér að það væri eðlilegt að kisa væri slöpp í 3, 4 daga, en hann vildi fá að kíkja á hana á mánudaginn ef hún væri ekkert að hressast.
Hún er á sérfæði, fær afganginn af kjúklingabringunum frá því í gærkvöldi. Það var nefnilega matarboð hjá mér og það lukkaðist svona líka vel hjá mér að grilla kjúklingabringur með beikoni. Kisa litla borðar þær með bestu lyst þegar ég er búin að hreinsa utan af þeim.
Kolgrímu finnst hún fá óþarflega litla athygli hér á heimilinu en hún er alla vega farin að vera góð við Klófríði.
Fressinn reyndist ekki vera einn heldur eru þeir tveir alveg eins, ég sá það loksins í gær, enda fannst mér skrítið að hann var stundum með ól og stundum ekki.
Boði kattaeftirlitsmaður kemur með gildru eftir helgi og losar mig við þessa leiðindafressi. Ég var hikandi að hafa samband, hélt að þeim yrði umsvifalaust lógað, en það er ekki þannig, þeim er haldið í viku og eigendum gefst kostur á að nálgast þá og gera bragarbót. Ógeltir fresskettir eru ekki heppileg gæludýr í íbúðahverfi.
Þó að báðar kisurnar mínar séu nú ófrjóar þá var haldið áfram að syngja ástarsöngva við gluggann okkar í nótt.
Í dag setur Guðmundur Þorsteinn hennar Nínu upp hvíta kollinn. Gaman að það skuli vera svona fallegt veður við stúdentsútskriftina.
Til hamingju Guðmundur og hamingjuóskir til ykkar allra sem útskrifisti úr Menntaskólanum á Egilsstöðum í dag.

|