Vor á pallinum
Það er aldeilis allt í sómanum í Skógarkoti.
Kisurnar njóta lífsins og ég hef það hreint út sagt gott.
Veðrið í gær var unaðslegt og það var svo mikið líf í hverfinu mínu. Börnin úti að leika sér og foreldrarnir í smíðavinnu, garðvinnu eða á spjalli við nágrannana.
Ég komst að því að á einum stað á pallinum mínum er alger suðupottur, ég hélst bara ekki við þar og þá var yndislegt að geta farið fyrir húshornið og fengið hafgoluna til að kæla sig.
Fína grillið var vígt í gær. Maggi kom og hann fékk að standa við grillið, ég gætti þess að hrósa honum reglulega. Hef sennilega hrósað honum aðeins of mikið því kjötið var aðeins of mikið grillað, en rosa gott samt.
Þetta er munurinn á körlum og konum við eldamennskuna. Við bara eldum þótt enginn taki eftir því. Það þarf að halda körlum við efnið með því að hrósa þeim reglulega, annars hætta þeir að hafa gaman af eldamennskunni og gefast upp.
En það er nokkuð ljóst að ég flyt út á pall í sumar ef hann hangir þurr. Ég er byrjuð að bera á garðhúsgögnin og svo þarf ég bara að fá einhvern til að festa upp markísuna.