Aumingja Klófríður
Núna liggur Klófríður litla á skurðarborðinu.
Ég fór með hana til Hjartar dýralæknis í morgun og henni fannst svo vont að fá svæfingarsprautuna að hún beit mig duglega í vísifingur.
Ég er eiginlega alveg viss um að hún er kettlingafull en þeir fara með leginu þegar það verður tekið.
Aumingja litla kisa, hún er allt of lítil til að eignast kettlinga. En fressinn ástsjúki hefur merkt sér Skógarkot svo rækilega að það kemur ekki nokkur maður nálægt húsinu. Hann kom í morgun og söng við garðdyrnar til að reyna að lokka kisurnar út.
Svona er lífið í kattheimum. En Kolgríma var afskaplega glöð þegar ég var búin að koma Klófríði út í bíl í morgun og hún fékk loksins að éta eftir 12 tíma föstun, Klófríði til samlætis.
Ég er að farast úr samviskubiti yfir að fara svona með hana kisu mína, en það er víst ekki annað að gera.