29 júní 2008

Pest á pest ofan

Skógarkot er eins og sjúkrahúsið í Svartaskógi.
Hér eru alltaf einhver veikindi. Ég er búin að vera með pestarsull mest allt sumarfríið, ég held ég sé bara komin með þráláta kvefpest.
En það er nú ekki alvarlegt, ég næ því úr mér einn daginn. Mér leist hins vegar ekki á hana Kolgrímu mína í gær, hún var svo hundlasin litla skinnið. Ældi lunga og lifur í gær og var orðin svo þróttlaus í gærkvöldi að ég hélt að hún ætlaði bara að gefa upp öndina.
Þegar ég fór að sofa, lá hún eins og hveitipoki undir rúminu mínu. En í morgun var hún búin að jafna sig, fékk sér vatnssopa og dreif sig út.
Ég hef hana grunaða um að hafa étið skógarmús sem hefur farið svona illa í magann.
Ég ætla að nota daginn í að dáðst að garðinum mínum milli þess sem ég skúra, skrúbba og bóna. Í þessum lóðaframkvæmdum eru gólfin hjá mér runnin saman við garðinn og ég er hætt að sjá hvar er mold og hvar er parket.
Annars finnst mér þetta sumar hér á Fljótsdalshéraði frekar klént, það er snjór í Fjarðarheiði og kuldi í lofti. Það voru bara 8°C í morgun.

|