13 júlí 2008

Heyannir

Í dag sló ég grasið við Skógarkot fyrsta sinn.
Það voru nú ekki margir hestburðir, fyllti einn svartan ruslapoka. En nýslegin flötin er falleg yfir að líta og sláttuvélin var svo góð að rjúka í gang þrátt fyrir að hafa staðið óhreyfð í tvö ár. Það þurfti bara að setja á hana bensín og toga í spottann.
Æskuvinirnir héldu suður í gær og mikið voru kisurnar fegnar. Þær fengu nefnilega ekki að sofa inni í íbúð þar sem tvær vinkonur mínar eru með kattaofnæmi. Klófríður og Kolgríma þurftu því að vera tvær nætur í bílskúrnum.
Í kvöld komu Guðrún og Árni tengdaforeldrar Önnu Berglindar í heimsókn, Maggi kom líka og við borðuðum öll saman. Það var afskaplega huggulegt. En þar sem við sátum og spjölluðum eftir matinn þá skall allt í einu á þvílík hellidemba að ég hef bara ekki séð annað eins hér á Egilsstöðum. En við sáum að það var þurrt í grennd. Það var eins og rigningin væri bara hér í þorpinu. Og þar sem ég sit og skrifa þetta þá hefur aftur verið skrúfað frá krananum og regnið dempist hér niður á pallinn.
10. júlí sl. eignuðust Lilja og Fannar lítinn dreng og á morgun ætlum við Maggi að bregða okkur til Húsavíkur og skoða nýja sonarsoninn hans Magga.
Það verður spennandi að heilsa upp á litla manninn. Ég er búin að sjá myndir af honum og hann er afskaplega myndarlegur.

|