Á þönum
Það er mikið að gera í Reykjavík.
Ég hélt reyndar í morgun að allt væri ónýtt hjá mér því ég fann ekki minnisbókina mína þar sem ég hafði skrifað niður það sem ég ætlaði að gera í borginni.
Eftir mikla leit gafst ég upp, settist út í bíl og ákvað að láta kylfu ráða kasti hvort ég gæti munað eitthvað. En sem betur fer lá minnisbókin mín í bílnum.
Byrjaði í IKEA. Það gekk bara vel á efri hæðinni, gat skoðað mig um í rólegheitum, en þegar ég kom á neðri hæðina kárnaði gamanið. Þar voru börn á hjólaskóm, þeyttust um með ærslagangi og ég mátti þakka fyrir að verða ekki fyrir slysi. Ég bara skil ekki hvað fólk er að gera með svona smáfólk með sér í búðir, nær að fara með krakkana í Heiðmörkina og leyfa þeim að hlaupa þar á meðan foreldrarnir versla í rólegheitum.
Svo var það Smáralindin og skemmtilegar heimsóknir til vina og vandamanna.
Í kvöld förum við Nína svo að sjá Sex and the city - ég sá aldrei tangur eða tetur af þessu þegar það var í sjónvarpinu - þetta er víst eitthvað sem allar konur eiga að hafa gaman af. Kemur í ljós í kvöld hvort ég hef gaman af þessu.