09 ágúst 2008

Í 7. himni

Tónleikarnir með Clapton voru betri en orð fá lýst.
Við Nína vorum ekki nema fáeina metra frá miðju sviðinu og stubburinn ég sá allt sem fram fór.
Trommuleikarinn var ótrúlegur. Stór og mikill rumur með tröllslega kjuða í höndunum og svo kraftmikill á trommunum að ég fann taktinn skella á bringunni á mér og hríslast niður allan líkamann.
Þegar lýsingunni var breytt þannig að fram í salinn og um sviðið fóru fíngerðir silfurlitir sólstafir þá vissi ég hvað var í vændum. Wonderful tonight.
Ég bara fáeina metra frá Eric Clapton þar sem hann var að spila Wonderful tonight - ótrúleg upplifun. Ég ætla ekki að reyna að lýsa því hvernig mér leið.
Svo vippuðu þeir sér beint yfir í kraftmikið Cocaine. Það átti að vera lokalagið en eftir mikið uppklapp tóku þeir eitt aukalag.
Við Nína vorum búnar að svitna nokkrum lítrum af vökva þannig að við fórum beint í næstu sjoppu eftir tónleikana og svolgruðum í okkur hvor sínum vatnslítranum. Svo löbbuðum við meðfram sjónum í kvöldkyrrðinni, sléttur sjór og Snæfellsjökull með roðagylltan bakgrunn.
Þetta kvöld á seint eftir að líða mér úr minni.

|