10 ágúst 2008

Á heimleið

Þá er þessum gleðidögum í borginni lokið.
Í gær fór ég með Gunnhildi á Gay pride. Það var virkilega skemmtilegt.
Birna frænka mín Þórðardóttir slæmdi í mig pískinum sínum þegar hún gekk framhjá mér á Laugaveginum og Júlli í Vallanesi reyndi að fá Gunnhildi upp á trukkinn sem hann var að dansa á.
Litadýrðin og gleðin var hreint ótrúleg, veðrið fínt svo þetta var sannkölluð karnivalstemning.
Í gærkvöldi var svo lokaþáttur skemmtidagskrár okkar Nínu en við fórum ásamt Berglind Rós að sjá Mamma Mía. Það var náttúrulega bara gleði og gaman þó ég taki undir þau orð að það er einhvern veginn voðalega skrýtið þegar Pierce Brosnan hefur upp raust og fer að syngja. Ekki alveg hans stíll. En maður lætur það ekki trufla sig mikið, samt undarlegt, hann er enginn söngfugl.
Við förum suðurleiðina austur og byrjum á að heilsa upp á Ragnheiði og Eymund á Vatnsleysu í Biskupstungum. Síðan brunum við beina leið heim á Hérað og þó þessi kaupstaðaferð sé búin að vera stanslaus skemmtun þá hlakka ég mikið til að koma heim, þar er eitt og annað sem ég hlakka til að sjá.
Í dag verður herramaður Fannarsson skírður á Húsavík og það verður spennandi að frétta hvaða nafn litla manninum verður gefið.

|