15 ágúst 2008

Í byggð

Þá er ég komin af fjöllum.
Við höfum verið að mestu sambandslaus við umheiminn síðustu þrjá daga og það er bara fínt. Maður hefur sloppið við að fylgjast með nýjasta farsanum við Reykjavíkurtjörn. Makalaust hvað Reykvíkingar búa við ótrausta borgarstjórn og það er auðvitað ekkert einkamál þeirra því þetta er jú höfuðborgin okkar allra.
Má ég biðja um að það verði sett saman borgarstjórn sem þarf ekki að hanga saman á límingunum það sem eftir er af kjörtímabilinu.
En ég hef sem sagt dvalið áhyggjulaus með Magga á fjöllum. Þar er helst að maður sjái fugl á flugi, heyri nið í ám og lækjum, gnauð í vindi eða gleymi sér við að horfa á fegurð landsins. T.d. fagurgrænan dýamosa ramma inn tæran læk.
Í gær komumst við mjög nálægt lítilli hreindýrahjörð, þetta voru 11 eða 12 dýr, okkur Magga ber ekki saman í svona stórri talningu. Það var gaman að liggja í leyni og fylgjast með dýrunum sem lengi vel vissu ekkert af okkur.
Í dag renndum við yfir í Snæfell og lentum á tal við hreindýraveiðimenn. Mér finnst þeir svolítið fyndnir í þessum stríðsgöllum sem eiga að vera feluföt en eru mjög áberandi í sandinum og á melöldunum.
Ókum framhjá stórri hreindýrahjörð, örugglega hátt í hundrað dýr. Það verður allt fullt af veiðimönnum inn við Snæfell um helgina, það eru víst margar hjarðir þar.
Verst að við komum svolítið seint heim og ég var bæði þreytt og baðþurfi þannig að ég sleppti bæjarhátíðinni í kvöld. En hún stendur alla næstu viku svo ég get gert mér glaðan dag.

|