17 ágúst 2008

Heilabrot

Ég er að brjóta heilann um eitt og annað.
M.a. þá skil ég ekki af hverju menn eru að fara til fjalla, reykja þar og henda frá sér stubbunum út í guðsgræna náttúruna. Geta menn nú ekki haft þessa stubba með sér heim aftur í farteskinu?
Bæði í Hvannalindum og við Geldingafell var ég að tína upp sígarettustubba, suma greinilega eldgamla. Þó þetta séu litlir hlutir þá er þetta rusl í náttúrunni þannig að ég vil beina því til fólks að skilja ekki eftir sig sígarettustubba á víðavangi.
Svo eru það smábörn á útihátíðum sem valda mér heilabrotum. Ég er reyndar svo gamaldags að mér finnst lítil börn eiga að fá að vera í kyrrð og ró heima hjá sér fyrstu vikur ævinnar. Ég er alla vega alin upp við að það á ekki að hafa hávaða þar sem smábörn eru.
Um daginn þegar ég var á Gay pride þá voru þar mjög ung börn með þunnar húfur og engar eyrnahlífar í þessum líka hræðilega hávaða. Þetta var reyndar bara gleði og gaman fyrir mig og aðra fullorðna, en ég er að velta því fyrir mér hvernig smábörn skynji þessi læti. Hvernig skyldu þessi litlu kríli upplifa allt sem fyrir þeirra litlu augu og eyru ber?
Það ættu að vera til litlar eyrnahlífar handa börnum, svona eins og vélamenn og aðrir sem vinna við hávaða nota.
Svo eitt að lokum. Ég er svo hrifin af Pierce Brosnan, hann er einn af mínum uppáhalds leikurum. Núna eru paparassar á eftir honum og hans frú af því að hún er svo fjallmyndarleg á ströndinni með honum. Ég segi nú bara að hann Brosnan er flottastur af því að hann heldur sig bara við sína konu þó hún sé svolítið pattaraleg.

|