24 ágúst 2008

Andlegt niðurbrot

Við Inga fórum á flandur saman í dag.
Ég upplifði nokkuð sem ég hef aldrei áður upplifað, þrátt fyrir að hafa dvalið mikið upp við Elliðavatn. Við fórum í ökuferð hringinn um vatnið. Þegar við komum í grennd við Elliðavatnsbæinn sá ég aftan á umferðamerki og þegar ég leit til baka sá ég að það var bannað að aka bifreiðum á þessum vegslóða sem við höfðum ekið eftir. Ég á því tæplega eftir að fara annan bíltúr hringinn um Elliðavatn.
Við ákváðum að heimsækja Siggu sem hafi tekið Menningarnótt með trompi. Fyrst fórum við í bakaríi til að kaupa smávegis meðlag með okkur á kaffiborðið.
Ég pantaði þrjár tertusneiðar, afgreiðslustúlkan horfði á mig og sagði: "Ætlar þú að borða þær hér eða viltu taka þær með þér?" Halló, þó ég sé svolítið bólstruð þá sit ég ekki á kaffihúsi og gúffa í mig þremur tertusneiðum.
Ég fékk smá uppreisn æru í flugvélinni á leiðinni heim þegar ég var spurð hvort ég hefði verið í Reykjavík til að taka þátt í maraþoninu. Sem er reyndar lítið raunhæfari spurning.
En það var gott að koma heim eftir vel lukkaða suðurferð. Maggi var búinn að elda gæs og það er ljúft að vera komin aftur austur á Hérað.

|