Liðin tíð
Undanfarin kvöld hef ég verið að skoða gamlar myndir.
Ég hef farið í gegnum marga kassa og mörg albúm með myndum frá því ég var lítil, frá því ég var unglingur, frá því ég var ung móðir, tveggja barna móðir, myndir af fjölskyldunni í leik og starfi.
Hvað væri ég ekki til í að gefa fyrir að fá að faðma dætur mínar aðeins meira. Fá að hverfa augnablik 20 ár aftur í tímann og knúsa þær smávegis.
En ég verð bara að fá að halda áfram að knúsa þær þó þær séu orðnar fullorðnar.
Ekki veit ég hvað ég hef verið að taka myndir af fjöllum og fossum. Ég hefði átt að taka meira af myndum af samferðafólkinu, það eru skemmtilegustu myndirnar.
Svo er eitt sem ég hef verið mjög upptekin af. Alla mína ævi hef ég upplifað mig sem feitustu konuna í hópnum, ekki nógu flott og ekki nógu fín. Svo þegar ég skoða þessar gömlu myndir sé ég að ég hef bara verið falleg og fín í vextinum. Fallegt barn, hraustlegur unglingur og bara myndarleg kona.
Af hverju gat ég ekki fattað þetta fyrr? Af hverju fatta ég þetta ekki fyrr en ég er raunverulega vel bólstruð kona? En ég ætla að láta þetta mér að kenningu verða. Nú bara horfi ég í spegilinn og minni mig á að í dag er ég flott, ég ætla ekki að uppgötva það eftir 20 ár að árið 2008 leit ég bara ágætlega út.
Hvað er þetta með okkur konur?
Ég legg til að allar konur líti í spegil í dag og segi: Ég er falleg, hraust og heilbrigð kona. Ég er sátt við sjálfa mig og ber höfuðið hátt.