26 janúar 2006

Kátur köttur og krakkinn heim

Þá er Kolgríma laus við saumana af mallanum.

Hún var hjá dýralækninum sem skoðaði hana vandlega, vigtaði hana og svo þurfti að ormahreinsa hana. Heilsufarsbókin hennar var fyllt út svo nú er kisa alveg með allt sitt á þurru.

Kisa vegur 2,7 kg og gæti átt eftir að þreknast svolítið, en hún er nánast fullvaxin. Læknirinn skoðaði á henni skottið sem hefur orðið fyrir einhverju slysi en er ekki brotið. Annað hvort hefur eitthvert óargadýr bitið hana í skottið eða hún hefur klemmst. Þetta gerðist um það leyti sem hún fór í aðgerðina.

Þið sem gerið grín að lífinu hjá okkur kisu hefðuð átt að heyra dýralækninn tala við hana Kolgrímu Högnadóttur. Þessi stóri og stæðilegi karlmaður talaði svo blíðlega og krúsindúllulega við kisu að jafnvel ég tala aldrei svona við hana, eða ég held ekki alla vega. Þið ættuð bara að hætta að skopast að mér.

En Kolgríma var alla vega fegin að komast heim eftir þessa læknisheimsókn og enn glaðari varð hún þegar ég hleypti henn út að leika. Hún hefur ekki fengið að fara út í hálfan mánuð og hefur síðustu dagana skælt við garðdyrnar, en ég hef ekki þorað að láta hana út í kuldann með svona bera bumbuna. Hún þurfti aldeilis að nusa af öllu, komst varla úr sporunum því hún þurfti að þefa af pallinum, af snjónum, af jörðinni þar sem enginn snjór er og af steinunum. Svo hvarf hún fyrir húshornið og er núna einhvers staðar úti í myrkinu að leika sér. Kannski að segja vinkonum sínum frá aðgerðinni og sýna þeim örið, svona eins og við mannfólkið gerum.

Var rétt í þessu að fá alveg glimmrandi góðar fréttir. Lambið mitt er að koma heim með næstu vél og ætlar að dvelja hjá aldraðri móður sinni um óákveðinn tíma.

|