21 janúar 2006

Þorrablót

Þá er árshátíð bæjarins yfirstaðin.
Þetta var afbragðs blót. Maturinn góður, skemmtiatriðin fín, hljómsveitin góð og öll umgjörðin flott. Allir kátir og glaðir, ja, eða alla vega næstum allir.
Þemað var Danmerkurferðir Héraðsmanna sl. ár og voru borðin látin heita götunöfnum í Kaupmannahöfn. Ég sat við Vesterbrogade 29 sem reyndist vera alveg upp við sviðið svo ég sat eiginlega bara í stúku.
Ævar í Bílamálun krúnurakaði bæjarstjórann svo nú er hausinn á bæjarstjóranum á að líta eins og kviðurinn á henni kisu minni. Ævar þyrfti eiginlega að semja við Völu systur sína að snyrta þetta ögn betur, svolítið ójafn rakstur.
Stjarna kvöldsins var Steini Óla í hlutverki hins íslenska piparsveins - hann fór alveg á kostum.
Ég var eins og ég hafði ætlað mér, gangandi glimmerdós. Meira að segja var ég ávörpuð "glitrandi mær". Aftur á móti gekk ekki eins vel með barbie-skóna. Ég var náttúrulega rosa flott á þessum skóm, en þegar ég var búin að fara nokkrum sinnum út og gá til veðurs þá voru böndin sem lágu yfir ristina, aðallega þessi sem eru næst tánum, farin að meiða mig. Ég var farin að hafa það að tilfinningunni að önnur stóratáin væri að skerast af mér. Svo að þegar borðhaldi lauk þá varð ég að draga fram varaskóna. Annars var mesta furða hvað ég entist á barbie-skónum því það er töluverð vegalengd frá sviðinu, meðfram öllum borðunum, eftir rauða dreglinum sem var fyrir framan borðsalinn og út um aðaldyrnar. Svo til baka aftur með viðkomu í kjallaranum til að þvo mér um hendurnar.
Ég var sett í næstu þorrablótsnefnd ásamt næstum 40 öðrum. Nú sem sagt verður maður að fylgjast vel með því hvað gerist hér í bæ næsta árið.
Ætlaði ekki að nenna á lappir í morgun. Kolgríma kom og hringaði sig á maganum á mér og lá þar lengi og malaði. Örugglega svipað fyrir kisu að liggja þarna eins og fyrir mig að kúra í vatnsrúmi. Ég svaf einu sinni í vatnsrúmi og ég var með sjóriðu þegar ég fór á fætur.
En kisa gerðist svöng og rak mig á lappir til að sjóða handa sér fisk. Hún er svoddan matgæðingur og krefst þess að fá fjölbreytt fæði. Ég keypti um daginn handa henni eitthvað voðalega fínt kattafóður út í Blómabæ og henni þótti það gott en hún er strax búin að fá leið á því.
Svo náttúrulega fréttir dagsins. Litli danski prinsinn er búinn að fá nafn eða öllu heldur nöfn. Þetta litla kríli þarf að bera 4 nöfn, Kristjan Valdimar Henri John.

|