04 febrúar 2006

Blót blótanna

Obboslega er ég orðin gömul.
Ég er með strengi í fótleggjunum, og hvernig sem á því stendur, líka í handleggjunum eftir þorrablót Valla og Skóga.
Fór í galagreiðslu strax eftir vinnu í gær, þessa sem nú er í tísku - straujað hár, og svo í samkvæmi á Hallormsstað. Þar var mætt Reykjavíkurdeild Gleðikvennafélags Vallahrepps og fáeinir karlar. Að loknum fagnaðarfundum og nokkrum gamansögum var liðinu pakkað í alla tiltæka bíla og brunað í Iðavelli á þorrablót allra þorrablóta.
Jón Guðmundsson listmálari, fyrrum barnakennari og brottfluttur Skógamaður var fenginn frá höfuðborginni til að stjórna fjöldasöng og af því tilefni mætti hann í sérsaumaðri Hensonpeysu með titlinum "söngstjóri" á bakinu. Söngstjórinn fór á kostum og aðeins yfir velsæmisstrikið -veislustjórinn stoppaði hann af með gamanmálin sem hann vildi flytja því eins og allir vita eru Vallamenn mjög viðkvæmir og þola illa brandara neðan axla. Jón var samt ráðinn til að stjórna söng að ári enda ófært annað en að nota þennan sérsaumaða einkennisbúning.
Ekki gátu menn stillt sig um að skopast að okkur Nínu en Nína er í næstu nefnd svo hún borgar vonandi fyrir okkur.
Eftir mikið át, mikinn hlátur, mikinn söng og mikið gaman var salurinn rýmdur og stiginn dans.
Tóta varð við óskum okkar Nínu og lánaði okkur Ruminn til frjálsra afnota á dansgólfinu. Það er örugglega eftir að hafa dansað nokkra dansa við hann og nokkra við nýkrýnt kyntröll Vallamanna sem ég er með þessa strengi í handleggjunum. Þeir þeyttu mér nefnilega eins og skopparakringlu um dansgólfið. Í einum dansinum var ég sannfærð um að Rumurinn myndi slengja mér upp á sviðið. Við komum á 45 snúninga hraða frá inngöngudyrunum í áttina að sviðinu þegar Rumurinn linar takið sem hann hafði á mér og ég fann að ég var að takast á flug þegar hann snögglega herti takið aftur og bjargaði mér frá bráðum háska. Það var samt ekki fyrr en eftir síðasta dansinn sem ég náði að laga kjólinn sem var búinn að snúast hálfhring á kroppnum á mér og perlusaumurinn sem á að vera á kviðnum var kominn aftur á bak.
En hárgreiðslan haggaðist ekki enda var ég viðbúin þessum dansförum og hafði beðið hárgreiðslukonuna mína að setja extra mikið af styrktarefni, lími og lakki í hárið á mér. Ég gleymi því nefnilega aldrei sem gerðist á balli hér í Valaskjálf fyrir aldarfjórðungi. Ég var í svörtu pilsi sem var slegið um mittið, var tvöfallt að aftan og bundið saman. Rumurinn bauð mér upp í dans, við fórum hring eftir hring á gólfinu og Rummsi í gríðarlegu dansstuði. Eftir þetta ball fékk pilsið mitt uppnefnið "svarta svuntan".
Ég náði ekki að dansa alla dansana sem búið var að leggja drög að á þorrablótinu en það kemur blót eftir þetta blót og þá byrja ég bara á danskortinu þar sem frá var horfið í nótt. Náði samt að fá mér skemmtilegan snúning með lambinu mínu.
Ég þorði ekki öðru en að drífa mig heim kl. 3 þó svo að þá væri allt í fullu fjöri og nokkrir dansherrar enn ónýttir. Ég þurfti að vakna í eldsnemma í morgun og mæta á þorrablótsfund í rauðabítið kl. 10.30. Já, þetta er ekki prentvilla eða mislestur. Þorrablótsnefnd á Egilsstöðum 2007 hélt sinn fyrsta fund í dag.
Pelli og Sigga, formenn nefndarinnar, skipuðu í hlutverk og lögðu fram æfingaáætlun. Pelli ætlar að vera tilbúinn með annálinn um næstu helgi og Sigga mun stjórna músastiga- og klippimyndagerð sem skreytinganefndin mun byrja á strax á mánudagskvöld. Síðasta þorrablótsnefnd er búin að vara við hvað það sé rosalega mikið verk að halda þorrablótið í íþróttahúsinu svo við byrjum bara stax að undirbúa til að lenda ekki í tímahraki. Ég held að það standi ekki til að halda þorrablótið núna um páskana heldur bara á bóndadag 2007, en það hlýtur að vera auglýst nánar þegar að því kemur.

|