10 febrúar 2006

Ég heppin

... eða fram úr hófi kölkuð.
Í morgun þegar ég var að klæða mig fálmaði ég eitthvað inn í fataskáp eftir svartri peysu sem ég hafði hugsað mér að klæðast í vinnunni. Greip í eitthvað sem gat verið peysa og dró út, viti menn, í höndunum hafði ég þessa líka fínu kvenlegu peysu með gatamynstri og perlusaumi. Ég var töluverðan tíma að átta mig á þessu fíneríi, en mundi svo að ég hafði keypt þessa flík fyrir jólin. Síðan hef ég bara hengt hana pent inn í skáp og steingleymt henni. Nú, en þetta var nú of fín flík til að nota í vinnunni í dag - að því er ég taldi. Þegar ég loksins mætti í vinnuna fékk ég að vita það hjá yfirmanninum að í dag væri akkrúat dagur þar sem ég ætti að vera sómasamlega til fara en ekki eins og hottintotti - eins og ég var. Nú voru góð ráð dýr. Ég opnaði fataskápinn upp í vinnu í einhverju bjartsýniskasti og hvað haldið þið - þarna hékk þessi líka fíni svarti flauelsjakki sem ég keypti sl. haust og hef einhvern tíma gleymt í vinnunni.
Ég veit ekki hvað er að gerast - vona alla vega að ég fari ekki að sjást hálfklædd í kaupfélginu af því að ég hef gleymt fötunum mínum.
Í morgun hélt ég bakstursæfingu og bakaði amerískar pönnukökur eftir uppskrift frá Ragnhildi Ben. Þær lukkuðst svona líka vel. Ég var með morgunmatinn í föstudagsmorgunverðarklúbbnum á Lyngásnum svo mér fannst alveg upplagt að nota klúbbfélagana sem tilraunadýr. Það voru meira að segja aðkomukonur og það leit út fyrir að þeim líkaði baksturinn. Ein bað meira að segja um uppskriftina - kannski bara fyrir siðasakir. Alla vega, ég get verið nokkuð róleg út af væntanlegum pönnukökubakstri á sunnudaginn. Bendi ykkur á kommentin sem ég fékk við amerísku pönnunkökufærslunni, þar eru fínar uppskriftir og ein mjög áhugaverð pönnukökuslóð. Þakkir til ykkar sem settuð inn uppskriftir.
Af Kolgrímu minni er það helst að frétta að hún er að verða eins og ég í laginu. Eftir að hún fór í ófrjósemisaðgerðina finnst henn mun huggulegra að vera inni og eta og eta og eta en að fara út að leika sér - við eigum þá alla vega sameiginlegt áhugamál. Hún hefur fitnað heil ósköp. Við verðum sennilega báðar að taka okkur nokkra daga á herbalife eftir helgina - þ.e.a.s. ef ég kem nokkuð aftur heim úr þessari lúxusútilegu þar sem verður byrjað að borða kl. 15.00 á morgun og áti ekki hætt fyrr en eftir hádegi á sunnudag. Spurning hvort maður kemst inn í venjulegan fólksflutningabíl.
Talandi um það. Ég fór á Höfn sl. miðvikudag og ég veit ekki hvar þetta endar með alla þessa flutningabíla. Einn keyrði á undan mér í Lóninu, hann var með tengivagn, ók á miðjum vegi og á næstum 100 km hraða. Ég bara bið Guð og gæfuna að gefa að strandsiglingar verði teknar upp aftur. Það var líka svo huggulegt að hlusta á skipafréttir í útvarpinu, vona að þær verði líka teknar upp. "Hekla er á Ísafirði, er væntanleg til Reykjavíkur um hádegisbil á fimmtudag. Esjan er á Reyðarfirði á leið til Vopnafjarðar." Svo væri hægt að taka upp óskalög sjómanna og snúa dagatalið niður í 1972 og ég væri þá að fara að fermast eftir rúman mánuð.

|