12 febrúar 2006

Gestaboð Babette

... eða veisla Brynjars meistarakokks og félaga.
Helgin hefur liðið í algerum munaði. Ég komst næst því sem ég á nokkurn tímann eftir komast að því að njóta matarboðs í líkingu við það sem segir frá í sögu Karen Blixen.
Við vorum saman komin 17 manns í Veiðihúsinu að Eyjum í Breiðdal og þar var sest að borðum kl. 19.30 í gærkvöldi og staðið upp kl. 2 í nótt eftir að við höfðum snætt 17 rétti, hvern annan ljúffengari.
4 karlkokkar voru í hópnum og þeir, ásamt hinum körlunum, sáu um að töfra fram hvern réttinn af öðrum en við konurnar sátum, höfðum það mjög huggulegt og karlarnir þjónuðu okkur lipurlega til borðs.
Lambapaté, kalkúnalundir, lambalundir, grísalundir, kjúklingalundir, hreindýralundir, nautalundir, risahörpuskel, humar matreiddur á 5 mismunandi vegu, áll, andapaté, kampavínskrapi í millirétt og svo í lokin kaffi og himnesk súkkulaðikaka með hindberjasósu og rjóma.
Ef eitthvert hlé varð á borðhaldinu þar sem maturinn var eldaður jafnóðum, fluttu tveir til þrír af körlunum okkur tónlist. Söngur við gítarspil.
Við fórum í actionari og ég sat með hnút í maganum yfir hvaða hlutverk ég fengi. Við Ragnheiður drógum tvo síðustu miðana úr skálinni og ég var sko heppin. Hún þurfti að leika kálf á súlfalyfjum en ég lék Árna Johnsen.
Í morgun sáum við nokkrar kvensur um dögurð og hann lukkaðist mjög vel. Amerísku pönnukökurnar fengu góða dóma, jafnt hjá kokkunum sem leikmönnum.
Þegar ég sest niður, gömul kona, og skrifa ævisögu mína í átta bindum, þá verður einn kafli helgaður þessari yndislegu helgi.

|