Alþjóðlega samvinnuverkefnið
Bara 10 dagar eftir.
Ég sé að það á að efna til mikillar hátíðar hér á Egilsstöðum daginn sem ég fæ Skógarkotið. Hreindýraveisla í miðbænum, grillaður hreindýrstarfur og nýtt grænmeti á boðstólum. Maður mætir auðvitað og svo er húllum hæ á eftir.
Ég hef verið að velta vöngum yfir þessu alþjóðlega samfélagi iðnaðar- og verkamanna í Bjarkarselinu. Ég er ekki viss af hversu mörgum þjóðernum þessar hendur eru sem hafa unnið við Skógarkotið. En hvað er það sem dregur alla þessa menn hingað? Auðvitað eru það margar ástæður eins og bágt atvinnuástand heima fyrir, ævintýraþrá o.fl.
T.d. skosku feðgarnir sem hafa verið að vinna við að mála. Ég spjallaði við pabbann um daginn, vinalegasti karl sem sagði mér að þeir væru bara tímabundið hér því fjölskyldan væri nýlega flutt frá Skotlandi til Kanada og þeir færu þangað þegar þeir væru búnir hér á Egilsstöðum.
Það átti að koma einhver sænsk stelpa, málarameistari, en hún lét ekki sjá sig.
Það er eins og hálf heimsbyggðin sé á faraldsfæti.