18 nóvember 2007

Siðmenntaðir ballgestir

Þá er síðasti dansinn stiginn í Valaskjálf.
Alla vega í bili, hvað sem verður.
Að loknu innflutningsteiti nr. 2 var haldið á dansleik. Ég var reyndar meira í stuði til að fara í háttinn en á ball, en þar sem Sigga vinkona var komin alla leið sunnan úr Kópavogi til að eiga skemmtilega helgi með mér, var ekki stætt á öðru en að fara á ballið.
Kannski er þetta bara aldurinn, eða hvernig sem á því stendur þá fór ég fljótlega eftir að inn í Valaskjálf kom, að velta fyrir mér siðgæðisstandardinum á ballinu.
Einn skrönglaðist blindfullur upp á borð og hugðist dansa þar en lak niður á gólf og baðaði þá sem við borðið sátu upp úr víni í leiðinni.
Einn tók sig til, stóð upp frá borðum, hneppti frá buxunum, tók niður um sig og moonaði framan í borðnauta sína.
Á dansgólfinu var ung kona í góðum holdum. Hún hafði greinilega eitthvað farið villu vegar í fataskápnum því hún taldi örugglega að hún væri í kjól, en í rauninni var hún bara í topp við húðlitaðar nælonsokkabuxurnar. Frekar nöturlegur klæðnaður í vertarveðrinu.
Einn skreið um gólfið, kannski nýmóðins dans, ef til vil að leita að linsunni sinni, en eftir hreyfingunum að dæma bara svona haugafullur.

|