Bílskrjóðurinn Súbbi
Ég fór á Höfn í gær.
Lagði af stað á mínum eðalfína Súbarú, sæl og glöð. Byrjaði á að smala saman ferðafélögunum, sækja Ragnheiði og svo Helga Jensson.
Helgi fékk hræðslukast á stéttinni heima hjá sér við tilhugsunina um að ég myndi vera ökumaður svo ég eftirlét honum ökumannssætið.
Allt í góðu með það. Nema að fljótlega fór hann að finna eitt og annað að honum Súbba mínum. Á Fagradal kvartaði hann yfir að það væri ekki krús kontrol á bílnum. Ég nota nú bara hraðamælinn. Svo var svona eitt og annað sem honum fannst ekki nógu gott við hann Súbba minn. Bað mig að finna skráningaskírteinið og segja sér hvað þessi kraftlausa vél væri stór. Hummm, 2.000 vél dugar mér fínt.
En það hefði ekki veitt af krús kontrol því við fórum á Axartíma á Höfn þó við þræddum firðina. Svo í bakaleiðinni var krapaslabb á veginum og þoka og þá kvartaði Helgi yfir að það væru ekki þokuljós.
Þetta er nú bara fólksbíll en ekki amerískur tröllapallbíll eins og Helgi ekur á.
Ég hafði það á tilfinningunni að Súbbi minn væri skrjóður og að ég yrði að huga að bílakaupum.
Nú, aðal fréttirnar hér eru að kappinn hann Maggi er búinn að bjóða mér á þorrablót 4x4 í Kverkfjöllum. Ég hef ekki mátt heyra minnst á fjallaferðir í mörg ár, en ég hlakka til að fara þessa ferð með kaffi í brúsa og nesti í boxi.
Nóg að gera í sósíallífinu því helgina eftir þorrablótið er stelpuferð til Reykjavíkur á dagskrá hjá okkur Nínu vinkonu. Leikhús, bíó, búðaráp og fleira skemmtilegt.
En núna um helgina ætla ég að vera í rólegheitum heima og reyna aðeins að taka til á heimilinu áður en Skógarkotið mitt breytist í sóðabæli.