Alkomin heim
Æi, hvað það er alltaf gott að koma heim aftur.
Nú er ég búin að vera 3 daga í burtu og kisurnar voru svo kátar þegar ég opnaði útidyrnar að þær hlupu beint út í skóg, enda búnar að vera lokaðar inni allan tímann.
Það var nú ekki í kot vísað í Goðaborgum og Anna Berglind og Nonni hugsuðu voða vel um mig. En ég var út um víðan völl, á ráðstefnu allan laugardaginn, í fermingu í Úthlíðarkirkju í Biskupstungum í gær og svo var mér ekið milli helstu verslana í höfðuborginni í dag.
Ég uppgötvaði það á leiðinni út á völl að ég hafði ekkert komið í Kringluna eða í Smáralind og það þarf að leita langt aftur í tímann til að finna Reykjavíkurferð þar sem ég hef ekki kíkt á annan staðinn.
Ég sat mjög aftarlega í flugvélinni á leiðinni heim. Þegar búið var að stöðva vélina og opna til að hleypa farþegum út, þá kom þessi líka yndislegi vorilmur sem einkennir Egilsstaði. Egilsstaðabændur hafa verið iðnir að bera á túnin um helgina.
Ég heyrði að flugfreyjan sagði við fólk þegar það gekk út "Má bjóða þér?" og ég braut heilann um það meðan ég þokaðist hægt nær dyrunum hvort Flugfélag Íslands væri tekið upp á að bjóða lavanderklúta við komuna til Egilsstaða - hefði ekki veitt af því. En þetta var þá bara eitthvað nammi. Kannski hugmyndin að trufla lyktarskynið með sterku bragði í munninn.