15 maí 2008

Keðjusagir og kolamolar

Við Maggi áttum rómantíska stund í rjóðrinu í gær.
Hann mætti með keðjusögina sína, hann hefur verið að dunda við að koma henni í lag. Ég rændi keðjusöginni hans Þórhalls bróður og sýndi bara nokkur tilþrif með hana í höndunum.
En það lenti nú aðallega á Magga að saga trjáskæklur úr rjóðrinu og nú er þetta bara að verða nokkuð snyrtilegt.
Ég vildi auðvitað gera vel við manninn eftir þetta puð og var búin að undirbúa grillun á barbíkjúlegnum kjúklingabitum.
Það skal tekið fram að ég hef aldrei áður grillað á gasgrilli og hef ekki grillað síðan á síðustu öld. Ég vissi því ekki alveg hvernig þetta virkaði.
Það er nú skemmst frá því að segja að ég henti kjúklingabitunum á grillið og fór svo bara inn að leika mér í kúluspili meðan ég beið eftir að þetta grillaðist af sjálfu sér.
Obbobob, svona á ekki að grilla. Ég tók af grillinu þá svörtustu kolakjúklinga sem ég hef á ævinni séð. En Maggi er svo lítillátur og hrósaði matnum í hástert.
Reyndar átti ég smá lamabakjötslufur sem ég gat grillað í sárabætur, en alla vega nú er ég búin að læra hvernig á EKKI að grilla og leiðin getur bara legið upp á við í grillmennskunni.

|