16 september 2008

Nýtt útlit

Mér tókst að koma nýju linsunum í augun.
Það var nú bara töluvert þrekvirki satt að segja og ég sé fyrir mér að ef ég næ ekki betri tökum á þessu þá verð ég að vakna kl. 5 á nóttunni til að koma linsunum í áður en ég fer í vinnuna.
En það er ótrúlegt að horfa út í buskann og sjá allt þó ég sé ekki með gleraugu. Ég sé betur en með gleraugunum, næstum bara í gegnum holt og hæðir.
Það er hvíld að taka niður gleraugun, ég er stundum svo þreytt í nebbanum.
Aðal ástæðan fyrir því að ég ákvað að fá mér linsur er aftur á móti löngunin að fá svona flott sólgleraugu eins og margir eru með. Mig hefur dreymt um að fá stór svört sólgleraugu og vera svolítið gelluleg eins og Sigga vinkona mín er. Hún er rosa skvísa með sólgleraugu eins og Jackie Kennedy.
Ég var svo heppin að augnlæknirinn ráðlagði mér að fara ekki í leisergeislaaðgerð, ég myndi ekki græða mikið á því. Ég er guðslifandi fegin að hafa fengið þá niðurstöðu því ég er orðin svo leið á að segja að ég þori ekki í augnaðgerð þegar fólk er að stinga upp á því við mig að fara í slíka aðgerð. Nú get ég verið kokhraust og vitnað í orð augnlæknisins.

|