Jólin alveg að skella á
Það hefur nánast ekkert verið gert á þessu heimili fyrir jólin.
Ja, nema bara að hlakka til og skrifa jólakortin.
Í dag komust jólagjafirnar til dætranna suður og heimareyktu hangilærin úr Fljótsdalnum fylgdu með. Það er svo sem lítið sem ég hef hugsað mér að gera meira fyrir jólin, nema þrífa baðherbergið, skipta á rúminu og sópa gólfin. Og það verður látið duga þetta árið.
Ég komst loksins Maggalaus í búðir í dag. Ég hef ekki haft tækifæri til að kaupa síðustu jólagjöfina fyrr því Maggi hefur þurft að aka mér og hækjunum í búðir það sem af er mánuðinum. En í dag fór Dandý með mig í kaupstaðaferð og ég sótti jólatré, skötu og keypti þessa síðustu jólagjöf.
Annað kvöld verður skötuveisla í bílskúrnum og ég held að það komi 10 eða 12 gestir. Svo er bara eftir að ákveða endanlega hvað verður í jólamatinn. Valið stendur um hreindýrakjöt, rjúpur og hamborgarhrygg. Það eru síðustu forvöð annað kvöld að ákveða hvað af þessu verður tekið út úr frystinum.
Ég sé fram á að þetta verði bara jól eins og öll önnur jól hjá mér - ég ætla að gera allt milli himins og jarðar, kem fæstu í verk og jólin verða yndisleg þrátt fyrir það.