27 desember 2008

Milli jóla og nýárs

Þá er mesta átið yfirstaðið.
Þetta hafa verið yndisleg jól í Skógarkoti. Hér hefur kyrrð og friður ríkt og kettirnir hafa malað út í eitt. Afgangurinn af rjúpunum gerði mikla lukku hjá Kolgrímu en Klófríður var hrifnari af afgangnum af hamborgarhryggnum. Garpi fannst soðni fiskurinn bestur.
Uppþvottavélin hefur verið biluð síðan 21. desember en það hefur ekki komið mjög mikið að sök. Eldhúsið er að vísu ekki hannað með það í huga að þar sé stundað handuppvask en þetta hefur allt gengið ágætlega. Ég vona að mér takist að næla mér í einn rafvirkja eftir helgina.
Veðrið á Fljótsdalshéraði hefur verið með eindæmum fallegt yfir hátíðarnar og himininn hefur verið alsettur glitskýjum. Núna eru bleik ský á himni og Maggi er farinn með félögunum í 4x4 að leika sér á Smjörfjöllunum. Ég ætla hins vegar að heilsa upp á litla son Siggu löggu því hann verður skírður í dag.
Það væri ekki amarlegt að fá sér göngutúr í skóginum í þessu yndislega veðri en ætli ég verði ekki að láta öklann jafna sig betur áður en ég læt verða af því. Ég er hins vegar farin að aka um á Súbba mínum og búin að sleppa annri hækjunni þannig að þetta er allt á réttri leið.

|