05 febrúar 2010

Lata Gréta er ekki alveg dauð

Loksins komst ég inn á bloggið - tæknimálin voru að ergja mig.
Lífið í Skógarkoti gengur sinn vana gang. Ég reyni að láta fréttir af landsmálunum sem mest framhjá mér fara en samt kemst maður ekki hjá því að heyra um endalausa spillingu á Íslandinu góða. Og ég sem hélt að Ísland væri best í heimi.
Það Ísland sem ég er uppalin á og Ísland í dag eru svo ólík samfélög að það er varla hægt að finna neitt sameiginlegt með þeim. Meira að segja okkar ástkæra ylhýra íslenska er að stökkbreytast.
Í Skógarkoti er enn töluð íslenska þar sem nýja þolmyndin hefur ekki rutt sér til rúms og þar sem þeir sem nota þágufall í stað þolfalls eru leiðréttir. Þeir sem nota ekki nefnifall með sögnunum að hlakka og kvíða eru líka leiðréttir.
Annars reynir ekkert svo mikið á þetta í Skógarkoti því kettirnir mjálma og litli prins sem er 19 mánaða er ekki farinn að mynda setningar. Ég vona að Magnús Atli segi ekki einn daginn - það var klappað kött í dag.
Í kvöld halda Vallamenn sitt árlega þorrablót - ætli þetta sé ekki það 115. í röðinni.
Ég nota daginn á hárgreiðslu- og snyrtistofu, síðan fer ég heim klæði mig í kjólinn og hengi á mig glys og glingur.
Ég veit að borðin munu svigna undan þjóðlegum mat og svo verður sungið og dansað fram á morgun.

|