Mamma Gógó
Í gærkvöldi fór ég í bíó á Seyðisfirði.
Það var verið að sýna Mamma Gógó og loksins fékk ég tækifæri til að sjá þessa mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar.
Myndin er yndisleg og mjög áhrifarík. Það jók e.t.v. áhrifin fyrir mig að sjá þessa mynd á Seyðisfirði en mamma dvelur þar á sjúkrahúsinu á deild fyrir heilabilaða. Svo er bíósalurinn gamall og hæfði myndinni vel.
Þó allir leikarar hafi skilað sínu hlutverki vel þá stendur Kristbjörg Kjell alveg uppúr að mínu mati. Þessi glæsilega kona sem hefur ekki bara verið falleg heldur alveg gullfalleg ung kona og er ekki síður glæsileg fullorðin kona.
Þar sem sonur hennar kemur til hennar á hælið og segir henni hvað hún hafi alltaf verið honum mikils virði þá er alveg eins og þarna sitji kona sem andlega hefur yfirgefið heim okkar.
Þó ég hafi á stundum orðið svolítið klökk þá er þetta ekki sorgleg mynd - það er mikill húmor í henni og Friðrik Þór fer mjög vel með þetta vandmeðfarna efni - að horfa á foreldra sína detta út úr samfélaginu og verða upp á aðra komin. Fólk sem hefur sitt stolt og á að fá að halda því.
Það eru nokkur ár síðan kvikmyndahúsarekstur lagðist af á Egilsstöðum en það er ágætur bíltúr að skreppa, í góðra vina hópi, frá Egilsstöðum í bíó á Seyðisfjörð - ég held ég geri meira af því í framtíðinni.