21 febrúar 2006

Gýpa litla

Og enn er ég að borða.
Það var ekki að ástæðulausu að hann pápi minn nefndi mig oft Gýpu þegar ég var lítil. "Ertu enn svöng Gýpa mín?" sagði hann stundum við mig. Þetta skilja þeir sem þekkja ævintýrið um hana Gýpu sem var svo matgráðug að hún át karlinn og kerlinguna og kotið með.
Helgarnar snúast um að sukka í mat og virku dagarnir snúast um að halda í við mig og þykjast vera dugleg á herbalife.
Um síðustu helgi var ég í einu stórafmæli, einu matarboði og hélt eitt matarboð sjálf. Allt lukkaðist mjög vel.
Af Kolgrímu er allt gott að frétta. Hún blæs út og er orðin óttaleg fitubolla. Hún hefur fundið upp á skemmtilegum leik, eða þ.e.a.s. henni finnst hann rosalega skemmtilegur. Hún treður sér undir lakið á rúminu mínu og er þar í einhverjum veiðileik sem hefur þær afleiðingar að nú þarf ég ekki að þvo lökin mín, þau fara bara rifin og tætt í ruslið. Auðvitað ákveðinn vinnusparnaður en svolítil aukning á heimilisútgjöldum. Eins gott að maður kemst af og til í Rúmfatalagerinn til hans Jakúps.
Um næstu helgi ætlum við Kolgríma að passa einstaklega fallegan lítinn kettling. Hann kom til okkar í heimsókn um daginn og það er nú ekki hægt að segja að Kolgríma hafi tekið honum sérstaklega vel, hún lamdi hann í hausinn - var samt dálítið fyndið á að líta. Ég er viss um að Kolgríma verður voðalega góð við litla krílið þegar hún fær að kynnast honum betur.
Það stefnir sem sagt í matarlitla helgi hjá mér, kattadekur og sennilega eitt Papaball.

|