16 febrúar 2006

Ríkissjónvarpið

Það er af sem áður var.
Í gamla daga var fimmtudagurinn sjónvarpslaus en nú sé ég fram á að sá vikudagur verði minn uppáhalds sjónvarpsdagur. Bara að ég muni eftir að kveikja á sjónvarpinu. Ég er er sko búin að kveikja á því fyrir kvöldið.
Nú á sem sagt að fara að byrja ný syrpa í einum af mínum uppáhalds sjónvarpsþáttum, Without a Trace eða Sporlaust eins og RÚV kýs að kalla þáttinn. Ég verð sem sagt límd við skerminn næstu 23 fimmtudagskvöld. Ef einhver ætlar að heimsækja mig á þessum kvöldum verður sá hinn sami að horfa með mér á þáttinn og fær ekkert kaffi meðan á útsendingunni stendur.
Lendi reyndar í obbolitlum vandræðum næsta fimmtudagskvöld því ríkisútvarpið mun þá sýna þann höfðingsskap að útvarpa beint tónleikum Sinfó og rokkara sem ætla að flytja War of the Worlds. Reyndar verða tónleikarnir líka fluttir í útvarpinu um páskana en það er svo langt þangað til páskarnir eru, ég get ekki beðið svo lengi.
Ég átti War of the Worlds, eða Innrásin frá Mars á okkar ylhýra, á vínil og ég spilaði hann í tættlur. Ég keypti mér svo diskinn en hef ekki hlustað mikið á hann. Það verður samt spennandi að heyra þessa tónleika, helst hefði ég vilja fara suður en eyðsluklóin ég er að reyna að kæla niður visakortið.

|