27 júlí 2006

Slúðurblöðin

Ég átti yndislegan tíma á hárgreiðslustofunni í dag.
Anna Alexanders dedúaði við hausinn á mér, nuddaði hársvörðinn, klippti og litaði hárið. Nú er ég orðin almennileg ljóska.
Það sem m.a. gerir ferð á hárgreiðslustofuna gagnlega er að á sex vikna fresti fæ ég tækifæri til að skanna Hér og nú og önnur slúðurblöð sem ég myndi aldrei láta sjást í innkaupakörfunni minni. Ef ég fengi ekki tækifæri til að kíkja í þessi blöð þá myndi ég ekki vita hvaða fólk er frægt á Íslandi.
Eins og t.d. Fjölnir. Ég man reyndar ekkert af hverju hann varð frægur, nema þá fyrir það að vera að slá sér upp með konum sem voru frægar fyrir að gera eitthvað annað en að slá sér upp með honum.
Kannski fær hann Fálkaorðuna einn daginn fyrir það hvað hann er frægur og vinsæll meðal fagurra kvenna - það er alla vega ekki verri ástæða til að veita slíka orðu en þegar ríkisstarfsmönnum er veitt hún fyrir það eitt að mæta daglega í vinnuna og vinna fyrir laununum sínum. Það gerist í hvert skipti sem Fálkaorðan er veitt að einhver stundvís ríkisstarfsmaður hreppir hana. Kannski ég fari að bæta mig í mætingunni og fari fram á það að það verði sett upp stimpilklukka á Lyngásnum, þá kannski fæ ég boð um að mæta í Bessastaði árið 2028 þegar ég hætti störfum hjá ríkinu.
Maður verður að hafa takmark til að stefna að í lífinu.

|