10 ágúst 2006

Framkvæmdir hafnar

Jæja, þá er búið að grafa fyrir grunni Skógarkots.
Mér varð litið út um gluggann upp í vinnu, í áttina að Skógarkoti (eins og ég hef átt til að gera oft á dag undanfarna mánuði). Nema hvað, ég sá ekki betur en það væri grafa að vinna nákvæmlega á þeim stað sem Skógarkot á að rísa.
Ég trúði ekki mínum eigin augum, ég hélt að fasteignasalinn myndi láta mig vita og að fyrsta skóflustungan yrði tekin við hátíðlega athöfn, léttar veitingar, klippt á borða, fjölmiðlar (alla vega fasteignablöðin) og svona smá ræðuhöld, blöðrur og fánar.
En nei, ó, nei. Bara byrjað á framkvæmdum í laumi.
Ég renndi uppeftir til að sjá þetta með eigin augum og það var ekki um að villast, allt á fullu og við Súbbi þvældumst bara fyrir.
Ég get huggað mig við að Skógarkot er fyrsta húsið sem byrjað er á neðan við götuna og í kvöld þá renndi ég uppeftir til að skoða holuna sem Skógarkoti verður sáð í. Undir stofunni og gestaherberginu er klöpp en mýkra undirlag verður undir eldhúsinu og svefnherberginu. Gömlu tréin voru skilin eftir eins og ég bað um en það á eftir að koma í ljós hvort ég láti þau standa - verð fyrst að sjá hvers konar útsýni verður af pallinum sem væntanlega mun verða reistur vestan við húsið.

|