10 september 2006

Gengið til góðs

Ég gerði eins og forseti vor og gekk til góðs í gær.
Mér sýndist reyndar í sjónvarpinu að hann stæði bara inn í Kringlunni, þurr og strokinn. Ég gekk á Hallormsstað og það kom úrhellisrigning og hvassviðri þessa stuttu stund sem það tók að ganga staðinn á enda.
En það var gaman að skoða nýju húsin og sjá nýju íbúana í skóginum. Skemmtilegast var að heimsækja Baldur og Braga. Þar komst ég heldur betur í feitt. Það er allt svo myndarlegt hjá þeim bræðrum og meðan Baldur fyllti Rauðakrossbaukinn sýndi Bragi mér eitt og annað sem þeir bræður hafa verið að fást við. Renndar bjöllur úr lerki, skálar, servéttuhringir og pennar úr ýmsum viðartegundum og hreindýrahorni. Ég fjárfesti fyrir eins mikinn pening og þeir þorðu að lána mér því ég var ekki með neinn aur á mér. Meiningin var nefnilega að ég myndi safna peningum en ekki eyða peningum.
Í bakaleiðinni kom ég við á Gunnlaugsstöðum og skoðaði alla litlu sætu hvolpana sem urðu 7 áður en yfir lauk. Ohhh þeir eru svo fallegir.
Ég var alveg búin eftir þetta flandur, háttaði upp í rúm og svaf í 3 tíma. Það á einhvern veginn ekki við mig að vera lasarus og ég mygla bara ef ég á að liggja margar vikur í bælinu - ekki til að tala um að ég geri það.
Skrapp út að hjóla smá í morgun til að anda að mér haustblíðunni og uppskar matarboð í kvöld. Uppskeruhátíð með hreindýrasteik, alls konar sultum og hlaupi, saft og guðmávitahvað.

|