18 ágúst 2006

Á rúntinum

Ótrúlega var gaman í gærkvöldi.
Við vorum 4 Kópavogs-skvísur á Kaffi París og áður en við færum heim ætluðum við að kíkja á ljósmyndsýninguna á Austurvelli.
Við vorum rétt byrjaðar að skoða myndirnar þegar byrjuðu að streyma þessir líka rosa kaggar og æðislegu mótorhjól fram hjá Hótel Borg.
Við urðum allar seytján á nóinu og fengum fiðring í magann þegar við heyrðum drunurnar í gömlum Mustang og félögum hans.
Ákváðum að labba yfir á Hallærisplan og sjá herlegheitin þar. Ógeðslega flott tæki maður minn. Og gæjarnir, þeir veifuðu þessum fjórum 17 ára stelpum enda voru þetta sömu gæjarnir og voru á rúntinum í denn og allir brotstu sínu blíðasta.
Það voru fleiri tugir af gljáfægðum mótorhjólum og maður sá þarna ömmur og afa sem loksins höfðu látið drauminn rætast og fengið sér eitthvað öflugra en Súkku eða Hondu 50.
Þetta var svo mögnuð upplifun að það munaði minnstu að ég labbaði framhjá Benza mínum í Pósthússtrætinu og færi út að Menntó til að taka SVK heim.

|