Heima er best
Þá er ég loksins komin heim í heiðardalinn.
Það fór auðvitað vel um mig hjá dætrunum, gaman að hitta alla vini og vandamenn sem ég náði að hitta fyrir sunnan og allt það, en það var afskaplega ljúft að koma heim.
Himnafaðirinn og Finnur sendu mér Ruminn á Reykjavíkurflugvöll og hann hjálpaði mér með handfarangurinn, var sko að fara austur með sömu vél og ég. Tengdasonurinn Járni var búinn að tékka inn farangurinn minn - ég reyndist vera með 20 kg yfirvigt - sniðugt af því að ég mátti ekkert bera.
Svo tók Nína á móti mér á Egilsstaðavelli þannig að ég þurfti ekkert að gera nema halda á veskinu mínu.
Kolgríma kunni sér ekki læti - mér hefur aldrei verið fagnað svona vel og lengi af nokkurri lifandi veru. Hún mjálmaði, velti sér um á gólfinu, elti mig hvert fótmál og ef ég hefði skilið kattamál þá er ég viss um að ég hefði fengið að heyra ýmislegt spaklegt.
Í nótt kúrði hún auðvitað hjá mér og ég vaknaði í það minnsta tvisvar við það að hún stóð upp og mjálmaði og þegar ég var búin að svara henni lagðist hún aftur fyrir.
Hún Kolgríma er heimsins besta kisa.