Hvar er forseti vor???
Eru nú Ólafur og Dorit á djamminu út í heimi?
Alla vega, þegar kötturinn er ekki heima leika mýsnar sér og það er það sem hefur gerst núna.
Ég sá það á netinu í morgun að Björn hefur notað tækifærið þegar forsetinn brá sér frá og fengið flokkssystkini sín, handhafa forsetavaldsins til að veita Árna Johnsen uppreisn æru. Er ekki í lagi með menn???
Það flugu svo margar spurningar um hausinn á mér þegar ég las þetta að mér tókst ekki einu sinni að fanga þær allar.
Byrjaði á því að teygja mig eftir orðabók og sjá það svart á hvítu hvað það þýðir að fá uppreisn æru. Skv. Orðabók Menningarsjóðs þýðir það að "fá viðurkenndan heiðarleika sinn og (óflekkað) mannorð".
Bíddu nú við, er bara ýtt á undo og nú er Árni með hvítskúraða sál? Er hann núna með hreint sakavottorð? Verður honum næst veitt starf ríkisféhirðis? Var ekki nóg að hann greiddi samfélaginu skuld sína með þægilegri dvöl á Kvíabryggju?
Maður bara spyr, hvað með þá sem flæktust í Geirfinnsmálin - Sævar fær ekki einu sinni málið tekið upp hjá Hæstarétti. Það hefur aldrei neitt sannast á þá sem flæktust í það mál og samt mega þau fara í gegnum lífið með þetta allt á bakinu.
Ég verð að viðurkenna að ég gef ekki mikið fyrir þetta aflátsbréf hans Björns og í mínum augum er Árni Johnsen bara Árni Johnsen og hann spilar ekkert betur á gítar, hann hefur ekkert fallegri söngrödd, hann heldur ekkert betur lagi og hann hefur ekkert heiðarlegri sál í mínum augum hvað sem Björn og félagar teikna fallegar myndir þegar Ólafur sér ekki til.