24 september 2006

Góður gestur

Það kom nú aldeilis óvæntur gestur í gærkvöldi.
Ég var bara inni í eldhúsi að tína til þessar tvær gulrætur, salatblaðið, hálfa tómatinn og eina og hálfa sardínu sem ég mátti borða í gærkvöld, þegar mér varð litið út um gluggann. Var ekki bara herra Garpur von Laufás mættur í kvöldmatinn. Ekki hefur nú minn matseðill freistað hans, en hann fór beint í matardallana hennar Kolgrímu og hreinsaði þá vel og vandlega. Kolríma var bara hin ánægðasta að fá Garp til sín og meðan hann hreinsaði úr matardöllunum, þá nusaði hún af honum hátt og lágt, sleikti á honum skottið og hausinn.
Garpur var hjá okkur í nótt og hafði það bara virkilega huggulegt.
Við Guðný Rós, sem er hjá mér í fóstri um þessar mundir, fórum svo með hann yfir í Stekkjartröð í hádeginu.
Maggi Garpseigandi fann að því við mig að ég hefði ekki gert meira úr afmæli Lötu Grétu en ég gerði, en ég var bara svo miður mín út af kisunni hans Kidda að ég hafði ekki rænu á því.
Þess vegna vil ég bæta ráð mitt og þakka öllum sem hafa heimsótt Lötu Grétu á þessu fyrsta ári hennar kærlega fyrir. Svo þakka ég þeim sem hafa skrifað athugasemdir enn betur.
En af því að ég sé það á teljaranum að það eru einhverjir sem lesa bloggið mitt þá langar mig að biðja ykkur sem aldrei hafið sett nafnið ykkar á síðuna að bregða nú út af vana ykkar og gera vart við ykkur.
Enn og aftur takk fyrir að lesa bullið mitt.

|