19 september 2006

Haust

Það eru góðglaðir skógarþrestir um allan bæ.
Í gærmorgun og í morgun þegar ég kom út fylltu þeir loftið með drykkjusöngvum. Reyniberin hjóta að vera komin á rétt gerjunarstig og nú má fara að reikna með einum og einum þresti fljúga á glugga og slasa sig eða binda enda á líf sitt.
Mér finnst ekki hægt að skamma kisu þótt hún láti eftir sér að gæða sér aðeins á áfengum fugli.
Ég finn til með þrastamæðrunum sem hafa lagt alla sína vinnu og ást í það í sumar að koma upp ungunum sínum og mega nú horfa upp á þá sauðdrukkna og syngjandi. Þetta er rétt eins og við mæður í mannheimum þurfum að ganga í gegnum á hverju sumri meðan börnin okkar eru unglingar sem vita ekkert skemmtilegra en að fara á útihátíð um verslunarmannahelgi.
Ég þori varla að segja frá því sem ég er að bardúsa þessa dagana því Inga Rósa gerir bara grín að mér. Ég sem sagt er búin að kaupa mér ferð til Tenerife í mars. Svo byrjaði ég á danska kúrnum í morgun og ræktinni í gær þannig að það eru svona obbolítil umframútgjöld. En ég er samt að gæta ítrasta aðhalds og sparnaðar.
Það má líta á þetta sem fjárfestingar en ekki eyðslu.
Þett er eiginlega bara spurning um bókhaldsfærslur.

|